Baileys í morgunmat og áhugaverðir fyrirlestrar

þriðjudagur, 29. júlí 2025

Guðni Gíslason

Samstilltur íslenskur hópur tók þátt í heimsþingi Rótarý í Calgary í Kanada

Heimsþing Rótarý eru haldin á hverju ári og í ár var þingið haldið í Calgary í Kanada 19. - 25. júní og voru þátttakendur um 16 þúsund en íbúar borgarinnar eru um 1,3 milljónir.

Ísland átti 12 þátttakendur þar af 9 rótarýfélaga.

  • Soffía Gísladóttir og Guðmundur Baldvin Guðmundsson úr Rótarskoti í norðaustri,
  • Guðni Gíslason úr Rótarýklúbbnum Straumi og Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir,
  • Jóhanna Ásmundsdóttir úr Rótarýklúbbi Akureyrar og Haukur Valtýsson,
  • Lilja Guðmundsdóttir og Teitur Gunnarsson úr Rótarýklúbbnum Reykjavík-Landvættir,
  • Arna Georgsdóttir úr Rótarýklúbbi Akureyrar,
  • Elín Björnsdóttir úr E-Club of Iceland
  • Auður Anna Ingólfsdóttir úr Rótarýklúbbi Héraðsbúa og systir hennar Sóley.

Ástæður eru eflaust margar fyrir hvatanum að því að fara á heimsþing. Fyrir þá sem hafa farið áður er ákvörðunin auðveldari enda er upplifunin mikil og auðvelt að kynnast fólki. Fyrir hina er það kannski ævintýraþrá og vilji til að upplifa eitthvað nýtt sem er hvatinn til skráningar.

Íslenski hópurinn

Gist á mismunandi stöðum

Calgary og Bow áin

Hópurinn gisti á mismunandi stöðum, þrenn pör gistu á sama Rótarý-hóteli og eitt par á öðru slíku, en svo má kalla hótel sem þingið bauð upp á og var upplýsingabás á hótelinu og akstur á þingstaðinn. Eitt par nýtti íbúðaskipti og tvær gistu í Airbnb. Gististaðirnir voru 8-15 km frá ráðstefnustaðnum en Uber gerði það auðvelt og ódýrt að ferðast á milli.

Áberandi alls staðar

Strax á flugvellinum í Calgary urðum við vör við heimsþingið, „já eruð þið að fara á Rótarýþingið?“ var spurt í vegabréfaskoðuninni og stórir borðar og svið mátti sjá í móttökunni á flugvellinum. Í miðborginni voru borðar út um allt með upplýsingum um þingið og allir virtust vita af heimsþinginu.

Heimsþingið

Aðalfyrirlestrarnir voru í Scotiabank Saddledome sem tekur 19 þúsund manns í sæti

Þingið var haldið í gríðarstórri ráðstefnuhöll, BMO Centre en setning, slit og aðalfyrirlestrar hvers dags voru haldnir í Scotiabank Saddledome, fjölnota innanhússleikvangi sem tekur um 19 þús. manns í sæti.

Dagskráin var mjög fjölbreytt og fjölbreytt afþreying einnig í boði.

Við komum til Kanada 19. júní og daginn nýttum við til að koma okkur fyrir. Undirritaður nýtti tímann til að hlaupa meðfram Bow ánni, sem á upptök í Bow jöklinum í Banff þjóðgarðinum og fór með frúnni á góðan veitingastað sem voru fjölmargir í Calgary.

Daginn eftir hittumst við öll til að sækja skráningargögnin okkar.

Á hverjum morgni voru aðalfyrirlestrar í Saddledome og eftir hádegi var úr fjölmörgum fyrirlestrum að velja. House of Friendship var alltaf opið en það er vettvangur fyrir hvers konar kynningar og þar voru sölubásar með ýmsan varning og klúbbar, umdæmi og baráttuhópar voru með bása til að kynna málefni sín. Þarna var svið með ýmsum uppákomum og fólk gat sótt þara upplýsingar um ýmisleg rótarýmálefni.

Ýmsir áhugahópar voru með fundi og m.a. sótti undirritaður fund áhugahóps Rótarý og skátastarfs.

Formlega setningarathöfnin var glæsileg með ávörpum, skemmtiatriðum og tónlist og góð stemmning var hjá þeim hátt í 16 þúsund þátttakendum sem mættu. Og ekki var lokahátíðin síðri þar sem öllu var til tjaldað.

Dagskrá að eigin vali

Svo margt var í boði að ómögulegt er að telja það allt upp. Íslenskir þátttakendur fylgdust með sérstakri Stampede sýningu þar sem m.a. annars mátti sjá knapa keppa berbakt á hestum, sýna listir sínar og hin glæsilega risastóra Stampede blásturssveit marseraði og spilaði. Calgary Stampede hófst stuttu eftir að heimsþinginu lauk og var sýningin forsmekkurinn að henni. Þar kom fram fulltrúi frumbyggja, m.a. Calgary first nation princess.

Heimsókn til rótarýklúbba var afar vinsæll viðburður og færri komust að en vildu. Þeir sem tóku þátt í því upplifðu gestrisni, góðan mat og kynntust góðu fólki. Þar sem undirritaður mætti var einnig borgarstjóri Calgary sem lét sig ekki muna um að dansa með okkur línudans undir góðri leiðsögn.

Þá tóku þó nokkrir Íslendinganna þátt í svokallaðri heimsforsetaveislu og þeir fyrrum heimsforsetar sem voru á þinginu voru þá gestgjafar á sínu borði. Undirritaður hafði þá ánægju að sitja til borðs með Ravi Ravindran og frú frá Sri Lanka en Ravi var heimsforseti 2015-16. Einkar viðkunnanleg hjón og var Ravi mjög áhugasamur um rótarýstarf á Íslandi.

Soffía, sem er verðandi „director“ hjá RI hafði líka í nógu að snúast og m.a. var hún í pallborði í umræðum um „Rotary your way: Form an irresistible club!“ og undirritaður var tvo daga starfsmaður þingsins.

Á leið inn á höllina á setningarathöfn þingsins.

Einstaklega góður hópur

Hitta mátti rótarýfélaga víða um Calgary og hér er hluti hópsins með Holger Knaack fyrrum heimsforseta og fleirum.

Íslenski hópurinn var mjög samstilltur og náði mjög vel saman. Það þýddi þó ekki að fólk veldi ekki dagskrárliði af eigin áhuga, þó oft hittust einhverjir úr hópnum.

Hópurinn fór í dagsferð í Banff þjóðgarðinn. Þótt úrhellisrigning væri á leiðinni þá var hið fínasta veður þar og margt skoðað. M.a. var farið með kláfi upp í um 2.200 m hæð, þó hækkunin hafi ekki verið nema 1.560 m. Þaðan var svo gengið upp í 2.283 m þar sem útsýnið var magnað. Til fróðleiks má geta að Calgary er í um 1.000 m hæð yfir sjávarmáli.

Helmingur hópsins fór í hjólaferð um Calgary en með í ferð var Tom Gump og frú en Tom var sérstakur aðstoðarmaður Stephanie Urchick, fráfarandi heimsforseta.

Miðborg Calgary er falleg og þar eru margar glæsilegar byggingar og ómótstæðilegir veitingastaðir sem hópurinn nýtti sér óspart.

Það sem stóð upp úr var hvað hópurinn náði vel saman, hversu fróðlegt þingið var og tengsl við rótarýfélaga víða að og ekki síst hversu vingjarnlegir allir voru í Calgary, hvar sem var í þessari einni hreinustu borg í heimi.

Við hjónin eigum nú heimboð í Kuala Lumpur og Iowa, svo fljótt myndast tengslin.

Næstu þing

Næsta heimsþing verður í Taipei á Taívan 2026 og þegar hafa 35 þúsund skráð sig á þingið og 2027 verður heimsþingið í Dubai. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Hver rótarýfélagi ætti að fara a.m.k. á eitt heimsþing.

Svo vikið sé að fyrirsögninni þá olli mjólkurskortur hjá tveimur þátttakendum því að Baileys var nýtt til að bragðbæta kaffið einn eða fleiri morgna.

Guðni Gíslason,
Rótarýklúbbnum Straumi

Guðni og Kristjana við risastórt skili Rótarýsjóðsins

Ýmislegt mátti upplifa í House of Friendship

Áhugahópar Rótarý kynntu starfsemi sína og skátinn Guðni lét sig ekki vanta.

Rótarý söluvarningur var áberandi

Útisvæðið var vel nýtt og auðvelt að kynnast fólki

Frá forsýningu á Calgary Stampete þar sem hin glæsilega og risastóra lúðrasveit kom fram.

Gamalt járnluga þar sem fólk með lömunarveiki nýtti mikið áður.

„First Nations Princess“ tók þátt í þinginu

Engu var til sparað við að gera þingið hið glæsilegasta

Fjölmörg skemmtiatriði voru

Kunnugur plötusnúður skemmti gestum á meðan allir voru að koma sér fyrir.

Höllin þar sem aðalfyrirlestrarnir fóru fram. Hún verður brátt rifin og ný er þegar í byggingu.

Guðni og Kristjana nutu gestristni fyrrum heimsforseta Ravi Ravindran og frú í forsetaveislu.

Hljómsveit lék sveitatónlist í klúbbheimsókn

Jerry var stoltur af íslensku ætterni sínu.

Borðfélagar í klúbbheimsókn og mynduðust góð kynni. Heimakonuna vantaði á mynd en hún hafði í nógu að snúast.

Hluti íslenska hópsins sem naut þess að skoða Calgary í hjólaferð með leiðsögn.

Hluti íslenska hópsins með Tom Gump og frú.

Hluti hópsins fór upp í 2.200 m hæð og naut glæsilegs útsýnis.

Grípa þurfti til regnhlífanna þegar sólin skein ekki.