Samstarf Rótarýklúbbsins Borga og Póstsins

föstudagur, 17. febrúar 2023
Rótarýklúbburinn Borgir og Pósturinn tóku höndum saman og sendu teppi og hlýjan fatnaði til borgarinnar Kharkiv í Úkraínu.

Kharkiv er önnur stærsta borgin í Úkraínu og nálægt víglínu stríðsátakanna. Mikið af fólki hefur misst heimili sín og þarf að hafast við utandyra við erfiðar aðstæður í vetrarkuldanum. Í lok síðasta árs ákváðu félagar í Rótarýklúbbnum Borgum að safna og senda fólki í borginni Kharkiv teppi og hlýjan fatnað.

Félagar í klúbbnum brugðust skjótt við og mikið safnaðist af skjólgóðum flíkum, lopapeysum og yfirhöfnum ásamt miklu magni af teppum. Þau Anna Stefánsdóttir og Jón Pétursson, forseti Borga, komu með sextán kassa, fulla af fatnaði, í póstmiðstöðina í vikunni. Með aðstoð Póstsins hafa kassarnir verið sendir til Kharkiv.


Á myndinni má sjá þau Önnu og Jón úr Borgum ásamt Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, forstjóra Póstsins, og Níelsi Val Lárussyni, starfsmanni í póstmiðstöð.