Eldhugi Kópavogs

sunnudagur, 1. janúar 2017

Viðurkenningin Eldhugi Kópavogs var veitt þann 14/3, í 26 skiptið af Rótarýklúbb Kópavogs (stofnaður 1961).

Fyrir valinu var dr. Bjarki Sveinbjörnsson tónlistafræðingur, f.1953. Viðurkenningin var veitt fyrir framlag til varðveislu tónlistarsögunar.

Bjarki sem gegnir nú stöðu fagstjóra hljóð- og myndsafns Landsbókasafnsins hefur verið mjög ötull við að safna saman og skrásetja gögn sem varða íslenska tónlistarsögu frá upphafi og fram á okkar daga. Hann var forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands sem staðsett var í Molanum í Kópavogi um 10 ára skeið.

En á þeim tíma var m.a. unnið að áframhaldandi þróun gagnagrunnsins Ismus.is, í samvinnu við stofnun Árna Magnússonar, sem er vefur sem inniheldur ótrúlega mikinn og fjölþættan fróðleik um íslenska tónlist, tónverk, tónlistarsögu og almenna þjóðfræði.

Bjarki hefur lagt ómældan tíma og orku í verkefnið á síðustu áratugum og teljum við því hann vinna mjög mikilvæg starf til verndunar og varðveislu íslensku tónlistarsögunar í nútíma formi.