Nýlega er lokið tveimur 4 klst. námskeiðum um fjármál fyrir alla sem Rótarýklúbburinn Rvík-Breiðholt hélt ásamt Fjármálaviti og Gerðubergi en námskeiðið var haldið bæði á íslensku og ensku.
Á síðasta ári sótti Rótarýklúbburinn
Rvík-Breiðholt um styrk frá umdæminu til þess að bjóða upp á námskeið í
fjármálalæsi í Breiðholti. Vel var tekið í beiðni klúbbsins en við skipulagningu
var ákveðið að leita til Samtaka fjármálafyrirtækja, sem eiga
fræðsluvettvanginn Fjármálavit er hefur þann tilgang að efla fjármálalæsi hjá
ungu fólki, og fjölskyldumiðstöðvarinnar Gerðubergs.
Ákveðið var að halda námskeiðið í 2 klst. í senn
tvo laugardaga í röð og fara yfir þau atriði í fjármálum einstaklinga sem nýst
gætu í daglegu lífi. Í auglýsingum var spurt hvernig hægt væri að safna fyrir
íbúð, hvað það þýddi að vera með lán og hvernig hægt væri að nýta peninga betur.
Kennari var Kristján Arnarsson stærðfræðikennari en hann hefur áralanga reynslu
af því að kenna fjármál og hefur m.a. séð um að kennslu á námskeiðum hjá Fjármálaviti.
Námskeiðin voru auglýst á samfélagsmiðlum og
m.a. keypti Rótarýklúbburinn auglýsingar á Facebook og Instagram, auk þess sem auglýsingar
voru hengdar upp í Gerðubergi, sundlauginni í Breiðholti og í Mjóddinni.
Áhuginn á námskeiðinu var mikill en um 150
manns opnuðu hvora auglýsingu fyrir sig. Þegar til kom þá mættu einungis sjö af
þeim tólf sem voru skráð á námskeiðið á íslensku. Áhöld eru um hvort þau öll hafi
verið í brýnni þörf fyrir fjármálafræðslu en meiri hluti þeirra voru eldri
borgarar. Af þeim 24 sem voru skráð á námskeiðið á ensku mættu 17 manns og þar
var mikil þörf á fræðslu sem sneri að íslenska fjármálakerfinu sem er að mörgu
leyti mjög frábrugðið þeim veruleika sem þau bjuggu við áður.
Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um hvort fleiri
námskeið verði haldin á vegum Rótarý Rvík-Breiðholts en við mælum eindregið með
því að fleiri klúbbar haldi slík námskeið og þá sérstaklega fyrir nýbúa. Til að
fá nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Eyrúnu Ingadóttur á netfangið ingadottireyrun@gmail.com.
Námskeiðið var haldið á íslensku og ensku F.v. Kristín Lúðvíksdóttir, Kristján Arnarsson, Eyrún Ingadóttir og Mirela Protopapa.